Að afloknu Landsmóti

Árangur okkar í Vesturkoti á Landsmótinu á Gaddstaðaflötum fór fram úr okkar björtustu vonum. Það voru fimm hross á okkar vegum í keppni eða kynbótasýningum á mótinu. Hæst ber auðvitað árangur Spuna í A flokknum.

Árangur okkar í Vesturkoti á Landsmótinu á Gaddstaðaflötum fór fram úr okkar björtustu vonum. Það voru fimm hross á okkar vegum í keppni eða kynbótasýningum á mótinu. Hæst ber auðvitað árangur Spuna í A flokknum en Sólon frá Vesturkoti stóð sig einnig vel í B flokknum, Þytur frá Efsta-Dal og Þórarinn náðu sínu besta í töltinu, Sæmundur frá Vesturkoti var sýndur í kynbótadómi sem og Hringur frá Gunnarsstöðum og var árangur þeirra mjög góður.

Árangur Spuna og Þórarins í A flokki gæðinga var frábær. Forkeppnin var riðin af öryggi þannig að sæti í milliriðlum væri tryggt því að í keppni sem þessari má ekkert út af bera alveg sama hvað hesturinn er góður. Í milliriðlinum slógu þeir félagar öll met og komu út með hærri einkunn en nokkru sinni hefur áður sést eða 9.08. Fyrir þessa sýningu var síðan Þórarinn verðlaunaður af Félagi Tamningamanna. Spuni kom því efstur inn í úrslitin á laugardagskvöldinu, tilbúinn í slaginn, einbeittur og sjálfsöruggur, kattmjúkur og geislandi af gleði. Þeir þurftu því að vera góðir gæðingarnir sem þarna voru mættir með honum ætluðu þeir sér að vinna hann. Undir öruggri stjórn Þórarins fengu þeir hæstu einkunn fyrir allt sem gefið var fyrir og sigur því í höfn og það með hæstu einkunn sem gefin hefur verið í A flokki gæðinga á Landsmóti eða 9.30 – stórglæsilegt. Sætur sigur og ekki síst í ljósi þess að þarna var að skila sér mikil undirbúningsvinna sem lagt var upp með fyrir tæpum tveimur árum með það að markmiði að sigra A flokkinn á Landsmóti. Við þann undirbúing nutum við leiðsagnar og ráðgjafar frænda okkar Einars Öder og fyrir það erum við afskaplega þakklát.

Þytur og Þórarinn stóðu sig einnig vel í töltinu og náðu sínum besta árangri og riðu sig í úrslitunum upp í 4. sæti. Þar var líka að skila sér markviss vinna og mikill og góður undirbúningur. Þegar Þórarinn fékk Þyt í hendur var hann ekki líklegur til stórafreka en með markvissri þjálfun hafa þeir félagar alltaf verið að bæta sig. Einn liður í þeirri þjálfun er að tala minna og gera meira. Þeim farnast best í þessu sem öðrum sem láta verkin tala.

Árangur Sólons frá Vesturkoti í B flokki gæðinga undir stjórn Gústafs Ásgeirs Hinrikssonar var langt umfram það sem við höfðum nokkru sinni þorað að vona. Gústaf Ásgeir er orðinn knapi í fremstu röð þó ungur sé. Hann er okkar lang efnilegasti knapi það hefur hann sýnt bæði á þessu Landsmóti sem og á öðrum mótum. Sólon var búinn að vera í þjálfun hjá Gústa í níu mánuði og var markmiðið að fara með hann á Landsmót. Sólon rétt skreið inn í milliriðilinn sem síðasti hestur en þegar þangað var komið þá tóku þeir félagar heldur betur á og tryggðu sé sæti í b úrslitum og enduðu þar í 13. sæti. Gústi stóð sig frábærlega og kunnum við honum og foreldrum hans þeim Huldu og Hinna bestu þakkir. Nú höfum við kvatt Sólon með eftirsjá því hann er farinn til nýrra eigenda í útlöndum. Við óskum þeim til hamingju með Sólon og vonum að þeim öllum farnist vel. Það var dálítið skrýtin tilfinning að kveðja Sólon því hann ásamt Spuna voru okkar fyrstu folöld sem við eignuðumst og eru okkur fædd.

Í kynbótadómi á Landsmótinu voru tveir hestar á okkar vegum. Sæmundur frá Vesturkoti 6 vetra bróðir Spuna og fór hann á mótinu í sinn næst hæsta dóm 8,39 en hafði áður farið í 8.44. Þokkalega góður árangur það. Sæmundur var sýndur af Daníel Jónssyni. Hinn hesturinn var Hringur frá Gunnarsstöðum 5 vetra í eigu Ragnars Sigfússonar. Hringur fór í sinn hæsta dóm 8.30 sem er frábær dómur hjá 5 vetra klárhesti. Hringur var sýndur af Þórarni Ragnarssyni.

Hulda

Leave a Reply Text

Your email address will not be published. Required fields are marked *